mold.is | Grasflötin
7363
single,single-post,postid-7363,single-format-standard,ajax_fade,page_not_loaded,,wpb-js-composer js-comp-ver-4.1.2,vc_responsive
 

Blog

135857606

Grasflötin

  |   Fróðleikur

Áður en lagt er af stað í framkvæmdir við gerð grasflata þarf að huga vel að öllum undirbúningi. Sé um að ræða lóð við nýbyggingu þarf að hreinsa svæðið vel af öllum leifum af byggingarefni og slétta það gróflega. Standi aftur á móti til að endurnýja gamla flöt þarf að tæta hana upp og setja í hana nýja mold.

Grös þurfa milli 10 til 15 cm. þykkt lag af góðri sandblandaðri mold sem heldur vel raka (70% mold og 30% vikursandur) til að vaxa og dafna vel. Sandblönduð mold þjappast vel og auðvelt er að slétta hana. Einnig er gott að gefa 6 til 8 kíló af tilbúnum áburði á hverja 100 fermetra sem er dreift jafnt yfir vaxtatímann.

Þökur

Þeir sem eru óþolinmóðir og vilja grasflötina tilbúna strax á fyrsta sumri eiga að kaupa sér þökur því sáning er seinlegri. Sama þykkt af sandblendinni mold, 10 til 15 sentímetrar eru hafðir undir hvort sem um er að ræða þökur eða sáning.

Við lagningu þakanna skal byrja á því að leggja beina röð hringinn í kringum flötina sem á að tyrfa. Eftir það eru þökurnar lagðar hálf í hálft og lokað með bútum ef um göt er að ræða. Ekki má þjappa þökunum þétt saman því þá getur myndast holrúm undir þeim og blettir sem ekki ná að skjóta rótum. Að þökulögn lokinni skal valta flötina og vökva.

Sáning

Við sáningu þarf jarðvegurinn að vera hæfilega rakur og nota skal um það bil eitt kíló af fræi á hverja 100 m2. Fyrsta árið eftir sáningu verður að halda umgengni um lóðina í lágmarki og að jafnaði tekur þrjú ár fyrir sáninguna að ná fullum þroska.

Viðhald

Sláttur er hluti af viðhaldi grasflatarinnar. Ekki má slá of snöggt því blaðmassinn verður að vera nógur til að sjá rótunum fyrir næringu. Æskilegast er að slá oft og reglulega.

Höf. Vilmundur Hansen
Vilmundur Hansen er garðyrkjufræðingur og þjóðfræðingur, hann starfaði sem verktaki í garðyrkju í mörg ár og starfar í dag sem blaðamaður og ráðgjafi í garðyrkju.
Vilmundur er höfundur bókanna Garðurinn allt árið og Árstíðirnar í garðinum.